Margmiðlunarver í skólatöskunni
Heimurinn er breyttur og það eru miklar líkur á því að þú sért með margmiðlunarver við höndina. Sú staðreynd hefur nú þegar haft mikil áhrif á það hvernig við tjáum okkur, miðlum og lærum. Það er liðin tíð að eina leiðin fyrir okkur til að koma skoðunum okkar og hugmyndum á framfæri sé að senda grein í Moggann, Þjóðviljan eða Tímann. Í dag eru leiðirnar bæði fleiri og fjölbreyttari og við getum sjálf haft mun meiri stjórn á birtingu þess sem við viljum senda frá okkur. Þeir sem hafa gott vald á að framleiða fjölbreytt efni á fjölbreyttu formi hafa ákveðið forskot og hafa betri möguleika á því að þeirra rödd nái í gegn.
Skólinn er að breytast
Þegar kemur að skólastarfi og þeim leiðum sem mest áhersla hefur verið lögð á að nemendur noti við öflun upplýsinga og úrvinnslu þeirra og til að sýna að hjá þeim hafi farið fram nám er óhætt að fullyrða þeir miðlar sem hafa haft algeran forgang í gegnum tíðina séu bókin og blaðið og því sem hefur verið miðlað er texti. Þau mælitæki sem gefin eru út af opinberum aðilum og lögð eru fyrir alla byggja líka fyrst og fremst á þessu og áherslan þar er á að mæla nemandann sem viðakanda texta en síður þann sem skapar.
Í mörgum skólum hafa áherslur hinsvegar verið að breytast og fjölbreytni verkefna hefur verið að aukast ekki síst með tilkomu nýrrar tækni. Sýn margra á skólastarf, nám og kennslu hefur einnig tekið breytingum og það endurspeglast að einhverju leyti í Aðalnámskrá þar sem skilgreind er svokölluð lykilhæfni undir yfirheitunum:
- Tjáning og miðlun
- Skapandi og gagnrýnin hugsun
- Sjálfstæði og samvinna
- Nýting miðla og upplýsinga
- Ábyrgð og mat á eigin námi
Lykilhæfnin fléttast svo inn í hæfniviðmið greinanámskráa þannig að það er í raun kallað eftir því að allir þessir hlutir séu þjálfaðir í öllu námi nemandans.
Þetta þýðir í mínum huga að það ætti að vera normið frá degi til dags í grunnskólum að það sé verið að vinna með fjölbreytta miðla, upplýsingar á fjölbreyttu formi þar sem áhersla er lögð á að nemandinn sé sá sem skapar, kynnist skapandi verferlum mismunandi listgreina, tjáir sig og þjálfist í að taka ábyrgð á verkum sínum. Þetta þýðir líka að við sem störfum í skólunum þurfum að treysta okkur til að leggja fyrir verkefni sem reyna á þessa þætti og veita nemendum leiðsögn. Þetta gæti þýtt að við þurfum að leggja á okkur einhverja vinnu og hugsa upp á nýtt hvernig við viljum nálgast viðfangsefnin sérstaklega þegar kemur að sköpun og nýtingu miðla sem ekki er sterk hefð fyrir í skólum.
Hér að ofan er verkefni unnið af nemendum í 9. bekk. Þarna er verið að vinna á áhrifaríkan og skapandi hátt með listgreinar eins og tónlist, kvikmyndagerð og leikritun og textagerð. Efnið er Ísland á tímum heimsstyrjaldar.
Undanfarin ár hafa skólar haft tækifæri til að setja í hendurnar á nemendum verkfæri sem ráða við ótrúlega fjölbreytta tegund miðlunar sem hefur haft mikil áhrif víða. Áhrifin hafa ekki síst verið mikil þar sem þessi verkfæri hafa verið valin út frá þeim möguleikum sem þau gefa til að bæta við nám nemenda og jafnvel breyta því á þann hátt að þau verkefni sem unnin eru fela sér hluti sem ekki var áður mögulegt að framkvæma. Verkefni sem ganga út á miðlun með hljóðupptökum, tónlist, kvikmyndum og teiknimyndum eru dæmi um verkefni sem hafa bæst við það sem áður var framkvæmanlegt auk þess sem þau þálfa nemendur í skapandi nálgun á verkefni og kynna þá fyrir skapandi verkferlum fjölda listgreina. Nemendur fá auk þess tækifæri til að tileinka sér fjölbreytta tæknilega færni. Það að koma tækninni í hendur allra nemenda stuðlar líka að því að jafna tækifæri þeirra til að miðla hugmyndum sínum og hugsunum með markvissum, fjölbreyttum og áhrifaríkum hætti.
Þetta verkefni er unnið af nemanda í 10. bekk. Það má kalla þetta kennslumyndband eða skýringamyndband þar sem hreyfimyndir og teikningar eru notaðar til að leggja áherslu á það sem sagt er. Efnið er þróun tungumálsins.
Kennir þetta sig sjálft?
Undanfarin ár hef ég unnið með teymi af fólki sem hefur tekið því alvarlega að nemendur þjálfist í að skapa og tjá hugsanir sínar og hugmyndir á fjölbreyttan hátt og byggi upp þekkingu og færni í notkun oft á tíðum flókinna miðla gegnum stór og smá verkefni, markvissa kennslu og endurgjöf og ekki síst endurtekningu.
Við mátum stöðuna þannig að ein af grunnforsendunum fyrir því að við myndum ná því fram sem við vildum ná fram væri að hafa tæki í höndum nemenda sem réði við öfluga miðlun og myndi styðja við fjölbreytta sköpun.
Við vildum að hver einasti nemandi væri alltaf með tæki í töskunni sinni sem gæfi honum kost á að taka upp og stunda fjölbreytta kvikmyndagerð s.s. gerð kennslumyndbanda, heimildamynda, fréttaskýringa, stuttmynda og tónlistarmyndbanda án þess að fleiri tæki þyrftu að koma við sögu og án aukaskostnaðar t.d. við kaup á hugbúnaði. Það væri hægt að teikna, bæta hreyfingu og áhrifshljóðum við teikningar og texta, hljóðrita tal og tónlist, teka upp söng og spila undir takt og hljóma. Þar að auki vildum við ekki fórna möguleikanum á því að nota skrifstofuvöndla og þau námsumsýslukerfi sem okkur standa okkur til boða.
Eftir að hafa prófað þá kosti sem okkur stóð til boða völdum við spjaldtölvu sem var að okkar mati lang öflugasta og meðfærilegasta tækið til sköpunar og miðlunar sem hægt var að fá. Þetta er tæki sem margir tónlistarmenn, teiknarar, kvikarar og hönnuðir nota í sinni sköpun og við sáum tækifæri í því að setja sama tæki í hendurnar á nemendum. Þess utan fyrir ræður tækið við alla þá almennu skrifstofuvinnu sem við höfum lagt áherslu á í gegnum tíðina þannig að litlu er fórnað.
Þegar við skipuleggjum kennsluna þá breytir það stöðunni gríðarlega mikið að hver einasti nemandi er alltaf með verkfærakistu þar sem hann getur teiknað, bætt kvikun og áhrifshljóðum við teikningar og texta, hljóðritað tal og tónlist, tekið upp söng og spilað undir takt og hljóma. Ekki spillir fyrir að allt þetta getur hann gert í hugbúnaði sem fylgir tækinu. Þessar aðstæður ekki bara kalla heldur öskra á breyttar áherslur og það hefur breytt því hvernig við hugsum um nám og kennslu. Þetta hefur að sjálfsögðu þýtt að okkar þekking hefur verið í stöðugri uppfærslu síðan en það má líka segja að kennslan hafi aldri verið meira skapandi og spennandi og við tilbúnari að prófa hluti og búa til nýja.
Þó verkfærið sé gott þá lýtur það stjórn þess sem hefur það í höndunum og allir þeir miðlar sem hafa verið nefndir hér á undan krefjast fjölbreyttar færni og skilnings á aðferðum þess miðils sem er verið að vinna með. Hver þeirra á sér sínar eigin reglur og hefðir. Það er ekki þannig að nemendur eigi svo auðvelt með að finna út úr þessu sjálfir. Sumir gera það á endanum en í raun eru hlutir eins og kvikmyndagerð, teiknimyndagerð og tónlist ekkert öðruvísi en lestur og ritun. Tæknin og rétti búnaðurinn að vera til staðar í höndum nemanda en fyrst og fremst þarf nemandinn að fá að nýta tæknina, fá leiðsögn, og fá tækifæri til að byggja upp mjög fjölþætta færni yfir tíma til að verða læs og ritfær á þá þessa miðla sem honum standa til boða. Leiðsögn og þjálfun skila bestri niðurstöðu.
Það er auðveldara að leggja fyrir hluti sem maður hefur reynt á eigin skinni en það þarf líka hugrekki til að fara af stað sem maður er ekki endilega öruggur með. Það er líka mikill lærdómur falinn í því að prófa hluti og takast á við það sem kemur upp á. Næsta skipti verður alltaf auðveldara.
Rýnt í nemendaverkefnin
Fyrri tvö myndböndin sem fylgja þessari grein eru eftir nemendur sem hafa haft tækifæri til að byggja upp færni yfir tíma og hafa aflað sér töluverðrar reynslu.
Í þessum verkefnum er verið að beita tæknilegri og listrænni færni í kvikmyndatöku, klippingu og hljóðupptökum, teikningu og kvikun. Þess utan er verið að vinna með ákveðið efni sem krefst þess að nemendur afli upplýsinga og vinni úr þeim á þann hátt að þeir sýni skilning á viðfangsefninu. Þarna reynir t.d. á þá færni að geta komið hugmyndum og hugsunum í ljóð eða texta en þetta eru ágæt dæmi um hæstu stig þess sem við viljum sjá frá nemendum okkar í notkun tungumálsins. Textinn eða ljóðið er sett yfir takt sem felur í sér sköpun á sviði tónlsitar sem og tæknivinnu þar sem takturinn er búinn til í ákveðnum hugbúnaði , framsögn er æfð og hljóðupptökutækni er notuð til að fanga flutninginn.
Svo er komið að myndræna hluta frásagnarinnar. Þá þarf að velja myndramma og sjónarhorn, teikna, kvika og klippa auk þess sem þarf að finna tæknilega lausn á því að láta mynd og hljóð fara saman. Það að teikna hefur fengið vængi við það að við getum tengt penna við spjaldtölvuna. Það að geta bætt hreyfingu við teikningar eykur svo áhrifin. Það er ljóst að þessi verkefni reyna á mjög fjölbreytta færni. Til að ná þeirri færni er oft gott að nemendur hafi tækifæri á að vinna smærri og afmarkaðri verkefni áður en komið er að því að nýta hana í svona flókin verkefni sem tengja saman ólíka þætti. Þessvegna er mikilvægt að tækifærin séu til staðar fyrir kennara og nemendur í fjölbreyttri verkefnavinnu.
Eðli þeirra miðla sem er til umfjöllunar hér og í raun allra tegunda miðla að þeir virka þvert á námssvið. Kannski ætti markmiðið alltaf að vera að nemandi geti valið sér þann miðil sem er áhrifaríkastur fyrir það efni sem hann er að vinna með hverju sinni og að hann hafi öðlast þá færni sem þarf til að framkvæma.