Kvikun í Keynote

Af hverju?

Að teikna eða búa til myndefni er frábær leið til að sjá fyrir sér og skilja hluti og til að tjá hugmyndir og tilfinningar. Myndræn framsetning hefur tilhneigingu til að hafa sterk persónuleg einkenni og allir ættu þjálfa og rækta færni sína á því sviði.

Keynote

Keynote er ótrúlega fjölhæft forrit sem fylgir öllum Apple tækjum frítt. Útgáfan fyrir iPad er sérlega skemmtileg og aðgengileg. Appið er upphaflega hugsað til glærugerðar og notkunar í lifandi fyrirlestrum en það hafa bæst við það miklir möguleikar sem gera það að verkfæri fyrir myndvinnslu, grafík og kvikun (Animation) sem gerir það að frábærum kosti fyrir þá sem vilja stíga inn á braut teiknimyndagerðar eða hanna hreyfimyndir. Hreyfimyndin sem þú sérð hér á síðunni er gerð að öllu leyti í Keynote fyrir iPad.

Áskorun til þín

Gerðu stutta teiknimyndasenu í Keynote.

Til að gera teiknimynd í Keynote er nauðsynlegt að þekkja töluvert mikið af þeim möguleikum og verkfærum sem forritið býður upp á og hér á eftir eru kennslumyndbönd og smærri verkefni sem leiða þig í gegnum áskorunina.

Þegar fólk er svo farið að þekkja alla þessa fjölbreyttu möguleika og hefur reynslu í notkun þeirra fer það yfirleitt að sjá meiri möguleika, fleiri tengingar við önnur verkefni og þangað vil ég að þú komist.

Í teiknimyndasenunni þinni eiga að vera a.m.k. þrír hlutir sem hreyfast og þú hefur búið til í Keynote og flutt út sem Animated GIF. Þú átt svo að setja þessa þrjá hluti saman í eina mynd. Leystu verkefnin sem hér fara á eftir í þeirri röð sem þau koma og á þinn hátt. Þannig muntu ljúka áskoruninni.

Verkefni 1 : Kvikunarhringur

Dæmi um einfaldan gönguhring.

Fyrsta verkefnið í áskoruninni er að búa til gönguhring eða einhverja aðra tegund af kvikunarhring.

Ef þú gúgglar Animation cycles og stillir á images finnur þú fullt af dæmum um teiknaðar manneskjur eða dýr að hlaupa, læðast, hoppa og jafnvel spígspora sem er búið að brjóta niður í myndramma. Þú skalt vista eitthvað af þessum myndum inn í iPaddinn þinn svo þú getur flutt þær inn í Keynote sem sniðmát.

Spreyttu þig svo á því að teikna þann kvikunarhring sem heillar þig mest upp í Keynote og flyttu hann svo út sem Animated GIF.

Myndbandið hér að neðan sýnir hvernig er hægt að gera þetta í Keynote.


Verkefni 2 : Kvikunarmöguleikar Keynote

Það eru margar leiðir til að láta hluti hreyfast um skjáinn í Keynote. Með því að búa til farartæki á hjólum sem getur keyrt yfir skjáinn kynnistu mörgum þeirra og það er einmitt það sem þú ætlar að gera hér. Búðu til nýtt Keynote skjal, fylgdu leiðbeiningunum sem eru í myndbandinu sem hér fer á eftir. Svo skaltu flytja farartækið þitt út sem Animated GIF til að eiga það ásamt kvikunarhringnum til síðari nota.


Verkefni 3 : Umhverfi og samsetning

Nú hefur örugglega kynnst Keynote nægilega vel til að geta teiknað upp eða sett saman umhverfið þar sem teiknimyndin þín gerist.  Þú skalt enn og aftur búa til nýtt Keynote skjal og byrja á því að búa til umhverfi. Þú getur prófað að láta hluti eins og ský og sól hreyfast í bakgrunninum. Svo skaltu prófa að setja þær Animated GIF skrár sem urðu til í skrefi 1 og 2 inn í umhverfið. Þú ættir að geta nýtt þér myndbandið sem hér fer á eftir á þessu stigi.


Verkefni 4 : Hljóðsetning og útflutningur

Það er eiginlega ekki hægt að enda þetta án þess að setja inn einhver hljóð. Það eru nokkrar leiðir til þess. Þú getur hljóðsett í Keynote appinu sjálfu, þú getur tekið upp skjáinn og talað yfir um leið og þú spilar myndina og þú getur fært myndina yfir í klippiforrit eins og iMovie sem er í iPaddinum þínum og hljóðsett og klippt þar.